Þessir vettlingar eru hannaðir í tilefni af átakinu Gulur september sem er ætlað að vekja meðvitund um mikilvægi sjálfsvígsforvarna og geðræktar. Einkunnarorð átaksins eru kærleikur, aðgát og umhyggja.
Ég fékk þann heiður að hanna fylgihluti í gulum lit í samvinnu við Icewear garn og mun ágóði af sölu uppskrifta renna til Píeta samtakanna. Fyrir valinu urðu vettlingar, enda september tími vetrarundirbúnings. Vettlingaprjón tengi ég líka sterkt við umhyggju og kærleika sem og tengsl, ekki síst milli kynslóða. Hönd í hönd getum við hjálpast að við að gæta hvert að öðru og vonast ég til að sjá gulklæddar hendur leiðast inn í veturinn.
Ég leitast við að hafa mynstrið aðgengilegt til að sem flest treysti sér til að prjóna það. Mig langaði til að koma semikommunni að ( ; ) en hún hefur fest sig í sessi sem myndrænt tákn um sjálfsvígsforvarnir; að það sé í lagi að gera hlé á tilverunni til að ná áttum, en umfram allt ekki setja punkt. Semikomman sést oft í húðflúrum, gjarnan við úlnliðinn. Ég valdi að finna henni stað á mótum stroffs og vettlingsbelgs á utanverðum úlnlið, á formi popp-kúlu og lítils dúsks.
Stærðir
Barna 1 (leikskóla), barna 2 (skóla), fullorðins 1 (dömu), fullorðins 2 (herra)
Hægt er að aðlaga stærðir með grófara garni og/eða breyttri prjónastærð.
Garn: Icewear garn, Baby wool (50g/175m) gulur 6030.
Magn: 20-50g eftir stærð parsins.
Prjónar: Hringprjónn eða sokkaprjónar, 3mm eða sú stærð sem þarf til að ná réttri prjónfestu.
Aukahlutir: 2 prjónamerki, stoppnál.
Prjónfesta: 26 L í sléttu prjóni í hring = 10cm
Aðferð
Vettlingarnir eru prjónaðir frá stroffinu og fram, annað hvort með magic-loop aðferðinni (og þá gjarnan báðir í einu) eða með sokkaprjónum.