Hér er komin mjög hefðbundin ullarpeysa sem þó býður upp á óendanlega möguleika í útfærslum eftir að hún hefur verið prjónuð. Nokkurs konar grunnur, eða strigi, til að skreyta að hjartans lyst (og list). Tilvalið verkefni fyrir byrjendur í prjóni sem langar að skarta litríku berustykki án þess að þurfa að kunna tví- eða þríbandaprjón. Slétt og brugðið nægir.
Í takt við fjölbreytileikann er uppskriftin bæði skrifuð neðan frá og upp (eins og hin hefðbundna lopapeysa) og ofan frá og niður, auk þess að vera bæði sýnd opin og lokuð.
Garn
Double Saga
Magn
Grunnlitur #9000-1134: 580, 650 (720, 790, 860) 930, 1000 g
Prjónar
7 mm í megin fletina og 6 mm í stroffin.
Prjónfesta
10 x 10 cm = 14 lykkjur og 18 umferðir í sléttu, einlitu prjóni í hring.
Athugið að aðlaga prjónastærð að prjónfestunni ef þörf krefur.
Stærð 1 2 3 4 5 6 7
Yfirvídd/brjóst: 85 95 105 115 125 135 145 cm
Berustykki: 22 23 24 25 26 27 28 cm
Ermavídd (efst): 30 32 34 39 41 46 48 cm
Sídd á bol frá handvegi: 38 40 40 42 42 44 46 cm
Ermasídd frá handvegi: 43 44 45 46 47 48 48 cm
Peysan er unisex, þ.e. hentar öllum kynjum. Aðlaga getur þurft síddir fyrir ólíka líkamsgerð. Tölurnar í töflunni hér að neðan hvað varðar síddir eru því fyrst og fremst til viðmiðunar. Best er að máta jafnóðum.
Aðferð
Mynsturkaflinn í berustykkinu inniheldur eftir atvikum úrtökur eða útaukningar sem falla inn í myndflötinn. Bolurinn er prjónaður án útaukninga eða úrtöku en ermarnar þrengjast niður.